„Ég held þá áfram í besta starfi í heimi, að vera prófessor við skólann og stunda kennslu og rannsóknir,“ segir Friðrik Már Baldursson en hann lætur af störfum sem forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík í júní á næsta ári. Þá verður hann búinn að gegna starfinu í fjögur ár.

Háskólinn í Reykjavík auglýsir í Fréttablaðinu í dag eftir nýjum forseta viðskiptadeildar skólans. Deildarforseti ber ábyrgð á rekstri deildar og leiðir akademískt starf hennar. Hann heyrir undir rektor og situr í framkvæmdastjórn Háskólans í Reykjavík.