Háskólinn í Reykjavík hefur ráðið dr. Friðrik Má Baldursson , nýjan forseta viðskiptadeildar í stað dr. Þorláks Karlssonar , sem tekur við starfi forseta kennslufræði- og lýðheilsudeildar HR.

'I umsögn á heimasíðu skólans kemur fram að ráðning Friðriks er í samræmi við ráðleggingar valnefndar, en hún var skipuð í kjölfar auglýsingar þar sem óskað var eftir umsóknum um stöðuna. Hlutverk hennar var að meta þær umsóknir sem bárust, velja hæfustu umsækjendur úr og skila skriflegu mati á hæfi þeirra til rektors og konrektors. Valnefndina skipuðu dr. Ari Kristinn Jónsson , forseti tölvunarfræðideildar, dr. Eric Weber , prófessor við IESE viðskiptaháskólann, dr. Rögnvaldur Sæmundsson , dósent við viðskiptadeild og dr. Ásta Bjarnadóttir , framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðamála.

Í störfum sínum skilgreindi nefndin nákvæman matsferil, í nánu samráði við konrektor skólans, dr. John Vander Sande . Matsferlið byggði á 7 vel skilgreindum þáttum til að meta umsækjendur:

          • Rannsóknarstörf
          • Reynsla af kennslu
          • Stjórnunarreynsla
          • Alþjóðleg tengsl
          • Leiðtogahæfileikar
          • Geta til fjáröflunar
          • Framtíðarsýn fyrir deildina

Ferlið sjálft fólst svo í að velja hæfustu umsækjendurna, ræða við þá persónulega, bjóða þeim í viðtöl þar sem stjórnendur HR og starfsmenn viðskiptadeildar gætu kynnst þeim, og loks að skrifa ítarlega skýrslu um ferlið og umsækjendurna. Skýrslunni var skilað til rektors og konrektors sem tóku lokaákvörðun um ráðninguna.

48 umsóknir

Alls bárust 48 umsóknir um stöðuna og valdi nefndin 4 umsækjendur úr þeim hópi. Rætt var við þessa umsækjendur og þeim boðið að koma í viðtöl. Tveir þessara umsækjenda ákváðu í miðju ferlinu að þiggja stöður annars staðar, en hinir tveir umsækjendurnir luku viðtalsferlinu. Valnefndin skilaði svo lokaskýrslu sinni í síðustu viku og í samræmi við niðurstöður nefndarinnar var ákveðið að ráða Friðrik í starfið.

Friðrik tekur formlega við sem deildarforseti viðskiptadeildar 1. ágúst nk