Nýbygging Háskólans í Reykjavík verður kynnt formlega fyrir starfsfólki og aðstandendum Háskólans í Reykjavík í dag. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi byggingarinnar verði tekin í notkun í árslok 2009, en alls verður byggingin um 30.000 fermetrar að stærð og leysir af hólmi um 24.000 fermetra byggingar háskólans á fjórum stöðum í borginni.

Byggingarframkvæmdir við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík hófust í ársbyrjun 2008. Fyrir staðarvalinu lágu margar ástæður svo sem glæsilegt umhverfi, nálægð við aðra háskóla og þekkingarfyrirtæki í Vatnsmýrinni, miðborg Reykjavíkur, stúdentaíbúðir og eina bestu íþróttaaðstöðu á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess eru mörg helstu fyrirtæki og stofnanir landsins i nágrenninu sem auðveldar sterk tengsl skólans við atvinnulífið segir í tilkynningu skólans.

Svæðið sem HR fékk úthlutað frá Reykjavíkurborg er um 20 hektarar að stærð og fer eingöngu hluti þess undir háskólabyggingar. Á svæðinu er rými fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, sprotafyrirtæki, rannsóknarstofnanir eða aðra starfsemi sem á samleið með því þekkingarsamfélagi sem HR vill byggja upp á svæðinu. Auk þess er hluti svæðisins hugsað fyrir stúdentaíbúðir.

Háskólabyggingin verður sem fyrr segir um 30.000 fermetrar að stærð á 2-3 hæðum.

Í byggingunni verða um 50 kennslustofur og rannsóknarrými af mismunandi stærðum allt frá því að vera fyrir litla hópa eða 25-30 nemendur og upp í 160 manna fyrirlestrarsali. Það er í samræmi við stefnu skólans að vera ekki með of stóra hópa í námskeiðum, þar sem of stórir hópar ná ekki nauðsynlegum tengslum við kennara. Um 3.000 nemendur eru við Háskólann í Reykjavík og 250 fastráðnir starfsmenn auk stundarkennara.