Háskólinn í Reykjavík (HR) og Eignarhaldsfélagið Fasteign hafa undirritað samning um að Eignarhaldsfélagið Fasteign taki að sér byggingu, fjármögnun og eignarhald háskólabygginga HR við Hlíðarfót í Vatnsmýri ofan við Nauthólsvík í Reykjavík að því er kemur fram í tilkynningu.

Samtals verða byggingarnar um 34.000 fermetrar að stærð og gert er ráð fyrir að þær verði afhentar í tveimur áföngum, haustið 2009 og haustið 2010. Háskólinn mun leigja byggingarnar með kauprétti.

Hönnun bygginganna hefur staðið yfir frá því haustið 2006 og eru Henning Larsen Architects í Danmörku og Arkís á Íslandi samstarfsaðilar um hönnunina, en VGK Hönnun annast verkfræðilega hönnun í samstarfi við Rafteikningu og Cowi í Danmörku. Landslagsarkitektar eru Landmótun.

Áformað er að hefja framkvæmdir við jarðvinnu í haust.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði. HR kappkostar að vera kraftmikill alþjóðlegur háskóli og fyrsti valkostur hér á landi á sínum fræðasviðum ásamt því að vera miðstöð alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs. Með nýstárlegri hönnun húsnæðisins mun aðstaða nemenda og starfsfólks HR verða á heimsmælikvarða og til þess fallin að örva rannsóknarvirkni og nýsköpun og skapa rými fyrir lifandi kennslu og náið samstarf við atvinnulífið.

Tæplega 3.000 nemendur eru í HR og gert ráð fyrir að þeir verði orðnir um 3.500 þegar háskólinn flytur. Fimm deildir verða þá við skólann, tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild, viðskiptadeild, lagadeild og kennslufræði- og lýðheilsudeild. Ríflega 230 fastráðnir starfsmenn og kennarar eru við háskólann auk 250 innlendra og erlendra stunda- og dæmatímakennara.

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. er félag sem hefur þann tilgang m.a. að leigja út fasteignir til fjármálafyrirtækja, ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra svo og annarra sambærilegra lögaðila. Þá hefur félagið þann tilgang að byggja nýjar eignir sem og að endurbyggja eldri fasteignir.