Háskólinn í Reykjavík heiðraði í gær, fimmtudaginn 25. september, sína bestu nemendur við hátíðlega athöfn í skólanum.

Í fréttatilkynningu frá HR segir að heiðurinn felist í því að afburðanemendur HR komist á svokallaðan Forsetalista HR, en þeim heiðri fylgi að viðkomandi nemendur fái felld niður skólagjöld á yfirstandandi önn. Að þessu sinni voru 70 nemendur skólans heiðraðir með þessum hætti.

Straumur hefur um langt árabil styrkt fremstu nemendur Háskólans í Reykjavík, en bankinn greiðir að fullu skólagjöld allra þessara nemenda.

„Stuðningur okkar við forsetalista Háskólans í Reykjavík er viðleitni til þess að styðja við afburðanemendur sem munu án vafa láta gott af sér leiða í störfum sínum í náinni framtíð,” segir William Fall forstjóri Straums í fréttatilkynningunni.

Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík sagði við sama tækifæri að skólinn væri afskaplega stoltur af þessum nemendum. Hún vitnaði í nýja rannsókn sem sýndi að húmor og hugrekki væru þeir eiginleikar sem fólk myndi helst eftir í fari samstarfsmanna sinna.