Háskólinn í Reykjavík á hlut í sex íslenskum fyrirtækjum sem orðið hafa til í tengslum við skólann á síðustu árum. Fyrirtækin, sem jafnan eru kölluð „spin-off“ fyrirtæki, eiga það sameiginlegt að hafa orðið til upp úr þekkingu sem orðið hafi til innan skólans. Þau hafi jafnframt orðið til með framlagi skólans. Þetta kemur fram í Markaði Fréttablaðsins í dag.

Það eru þó ekki einungis „spin off“ fyrirtækin sem verða til í tengslum við Háskólann í Reykjavík.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir í samtali við Markaðinn að mörg fyrirtæki verði til í tengslum við skólann, án þess að skólinn hafi beina aðkomu að þeim. Þannig hafi 16% nemenda sem útskrifuðust árið 2010 ýmist stofnað fyrirtæki á meðan á námi stóð eða eftir útskrift. Hann segir áherslu skólans á að kenna nýsköpun mikla og hann muni áfram leitast við að styðja slíka starfsemi.