Námsbrautir í grunn- og meistaranámi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík hafa hlotið evrópsku gæðavottunina EQANIE til næstu fimm ára. HR er því fyrsti og eini háskólinn hér á landi sem hefur hlotið þessa vottun eins og segir í fréttatilkynningu frá skólanum.

Segir í fréttatilkynningunni að markmið EQANIE vottunarinnar sé að auka gæði námsbrauta í upplýsingatækni í Evrópu, veita upplýsingar um nám í upplýsingatækni í Evrópu með viðeigandi vottun, auðvelda  gagnkvæma viðurkenningu á hæfni í upplýsingatækni innan Evrópu og að auka hreyfanleika nemenda.

Dr. Yngvi Björnsson, forseti tölvunarfræðideildar segir í fréttatilkynningunni að vottunin sé mikilvægur gæðastimpill fyrir deildina og segir jafnframt  „Það er mikilvægur hluti af stefnu Háskólans í Reykjavík að bjóða nemendum afburða gott og alþjóðlega viðurkennt nám. Með þessari vottun hafa nemendur okkar enn betri möguleika á störfum út um allan heim, flutningi milli háskóla og framhaldsnáms við erlenda háskóla.“

EQANIE stendur fyrir European Quality Assurance Network for Informatics Education