Háskólinn í Reykjavík (HR) er í 59. sæti á nýjum lista Times Higher Education yfir 100 bestu ungu háskóla í heimi (Young Universities Ranking). Á listanum eru háskólar 50 ára og yngri en HR á sér aðeins um rúmra 20 ára sögu.

Alls tekur listinn til 414 háskóla út um allan heim en í fyrra voru þeir færri eða 351. HR var þá í 52. sæti. Listinn byggir á mati á 13 lykilþáttum háskólastarfs, fjölda tilvitnana í vísindagreinar eftir starfsmenn skólans, gæðum kennslu og rannsókna, alþjóðlegum tengslum og samstarfi við atvinnulífið.

Lykilþættirnir sem um ræðir eru þeir sömu og notaðir eru til að raða háskólum niður í sæti á aðallista Times Higher Education en þegar kemur að ungu háskólunum er dregið úr vægi orðspors. Meiri áhersla er á kennslu, rannsóknir, hagnýtingu rannsókna og alþjóðavæðingu. Hér er hægt að lesa um aðferðina sem notuð er til að meta stöðu háskóla á listanum.