Háskólinn í Reykjavík og Íslandsbanki hafa samið um kaup HR á fasteigninni að Menntavegi 1 í Nauthólsvík, sem hýst hefur starfsemi HR frá árinu 2010. Íslandsbanki og Landsbankinn fjármagna kaupin. Með þessum samningum lækkar húsnæðiskostnaður HR og eignarhlutur HR í byggingunni verður hluti af fjárhagslegum grunni háskólans til framtíðar.

Kaupin marka um leið aukna uppbyggingu Háskólans í Reykjavík á háskólasvæðinu við Öskjuhlíð. Háskólabyggingin að Menntavegi 1 verður hluti af Grunnstoð ehf. sem er í 95% eigu HR og 5% eigu bakhjarla HR; SVÍV, SI og SA. Grunnstoð mun einnig halda utan um uppbyggingu annarra fasteigna á því 200.000 fermetra háskólasvæði við Öskjuhlíðina sem heyrir til HR.

Syðst á háskólasvæði HR, næst Nauthólsvík, er háskólabyggingin sem er samtals um 30.000 fermetrar að stærð en hana má stækka um 15.000 fermetra til viðbótar, upp í samtals 45.000 fermetra. Á svæðinu norðan og vestan við háskólabygginguna er tæplega 20.000 fermetra lóð ætluð fyrir nýsköpunarfyrirtæki- og stofnanir. Norðan við háskólabygginguna, á um 30.000 fermetra landsvæði, munu Háskólagarðar rísa. Þar verða 300-400 íbúðir, auk leikskóla og annarrar þjónustu, fyrir námsmenn og aðra sem tengjast mennta- og nýsköpunarsamfélaginu  við HR.

Íslandsbanki og Háskólinn í Reykjavík hafa samhliða þessum samningum undirritað samstarfssamning um stuðning bankans við menntun við HR. Íslandsbanki vill með því skapa eftirsótta starfskrafta sem nauðsynlegir eru fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Markmiðið með samstarfinu er að efla enn frekar það starf sem þegar er til staðar, skapa ný tækifæri sem styðja beint við starfsemi beggja aðila og auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Einnig munu Íslandsbanki og Háskólinn í Reykjavík efla samstarf sitt um fjármálafræðslu fyrir almenning. Þá kemur Íslandsbanki til með að veita meistaranemum færi á að koma lokaverkefnum sínum á framfæri á fræðslufundum á vegum VÍB.