Háskólinn í Reykjavík er í 89. sæti á lista Times Higher Education, en listinn nær yfir hundrað bestu ungu háskóla. Á listanum eru háskólar sem eru 50 ára og yngri. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá HR.

Listi Times Higher Education er byggður á mati á þrettán þáttum háskólastarfs sem þykja vera lykilþættir. Meðal þessara lykilþátta eru gæði kennslu og rannsókna, fjöldi tilvitnana í vísindagreinar eftir starfsmenn háskólans, alþjóðleg tengsl og samstarf við atvinnulífið.

"Þetta er frábær niðurstaða og meiriháttar alþjóðleg viðurkenning á gæðum starfs okkar í HR. Starfsmenn, nemendur og allir sem lagt hafa sitt af mörkum mega vera mjög stoltir af því hversu langt við höfum náð á skömmum tíma. Frá stofnun HR hefur áhersla verið lögð á góða kennslu og öflugt samstarf við atvinnulífið og síðan voru byggðar upp öflugar alþjóðlegar rannsóknir við háskólann. Á bak við þessa viðurkenningu er því mikil vinna og uppbygging og í henni felst hvati til að halda áfram að efla háskólann og sinna nemendum, atvinnulífinu, íslensku samfélagi og alþjóðlegu vísindastarfi ennþá betur" er haft eftir Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, í tilkynningunni.