Háskólinn í Reykjavík og Advania hafa gert samning til þriggja ára sem á að miða að því að fjölga þeim sérfræðingum hér landi sem hafa þekkingu á bæði upplýsingatækni og viðskiptum. Samstarfið skiptist bæði í beint fjárframlag Advania til háskólans og samstarf við kennslu, þróun námsleiða og þekkingarmiðlunar. Þá er stefnan sett á uppbyggingu menntunar á sviði viðskiptagreindar (business intelligence).

Í tilkynningu um málið er haft eftir Gesti G. Gestssyni, forstjóra Advania, að atvinnulífið þarfnist fólks með tæknilegan bakgrunn og ákveðna grunnþekkingu á viðfangsefnum í fyrirtækjarekstri og umtalsverðan skort á viðskiptamenntuðu fólki með tæknikunnáttu.

„Hagvöxtur framtíðar byggir á hugviti og þar skipar upplýsingatæknin stóran sess, bæði sem sjálfstæður iðnaður og sem stoð við annan iðnað. Efling menntunar í upplýsingatækni eflir þannig íslenskt samfélag og atvinnulíf,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Samstarfssamningur Advania og Háskólans í Reykjavík var undirritaður í aðdraganda Framadaga háskólanna, sem haldnir verða í HR á morgun, miðvikudaginn 6. febrúar.