Háskólinn í Reykjavík hefur hafið samstarf við Eimskip sem gefur nemendum skólans kleift að vinna að verkefnum tengdum starfsemi fyrirtækisins.

Samstarfssamningurinn sem undirritaður var í vikunni er til þriggja ára en hann miðar að því að efla samstarf á sviði frumkvöðla- og nýsköpunarstarfs, rannsókna og menntunar í tengslum við starfsemi Eimskips.

Kveður hann meðal annars á um stofnun rannsóknasjóðs á vegum Eimskips til að styrkja rannsóknir og verkefni starfsmanna og nemenda HR á sviði flutninga. Yrði það með áherslu á þarfir Eimskips með nýjungum í notkun gáma, endurvinnslu og lágmörkun umhverfisáhrifa í forgrunni.

Mun Eimskip opna starfsstöðvar sínar erlendis fyrir nemendur skólans í skiptistarfsnám sem og húsnæði sitt í Sjávarklasanum og skrifstofum félagsins fyrir nemendur sem vinna að samstarfsverkefnum.