*

mánudagur, 13. júlí 2020
Fólk 27. nóvember 2019 11:43

HR ræður Sindra í lagadeildina

Sindri M. Stephensen hefur verið ráðinn lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Ritstjórn
Sindri Stephensen er nýr lektor við Háskólann í Reykjavík.
Aðsend mynd

Háskólinn í Reykjavík hefur ráðið Sindra M. Stephensen í stöðu lektors við lagadeild háskólans.

Sindri starfaði áður sem aðstoðarmaður forseta EFTA-dómstólsins í Lúxemborg. Hann útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands með hæstu einkunn árið 2014 og lauk viðbótarmeistaraprófi með ágætiseinkunn í lögfræði frá Oxford-háskóla árið 2017.

Þá var hann gestafræðimaður við lagadeild Berkeley háskóla í Kaliforníu árið 2018. Hann starfaði á Juris lögmannsstofu áður en hann var ráðinn til EFTA-dómstólsins, auk þess sem hann sinnti stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Sindri hefur skrifað níu ritrýndar fræðigreinar um lögfræði, m.a. á sviði réttarfars, skattaréttar, stjórnsýsluréttar og vinnuréttar.

Hann hefur haldið fyrirlestra á ráðstefnum og fyrir sérfræðinga um lagaleg álitaefni auk þess að hafa komið að skrifum á kennsluriti í almennri lögfræði. Væntanleg er útgáfa fræðirits eftir hann um réttarfar Félagsdóms í byrjun næsta árs hjá bókaútgáfunni Fons Juris.