Háskólinn í Reykjavík (HR) og Startup Iceland gerðu fyrir stuttu með sér samstarfssamning sem miðar að því að styðja við íslenska frumkvöðla. Bala Kamallakharan, fjárfestir og stofnandi Startup Iceland, segir um samstarfið í tilkynningu að HR hafi verið þátttakandi í fyrstu Startup Iceland-ráðstefnunni í fyrra og starfsfólk skólans sýnt mikinn áhuga á samstarfi frá byrjun. „Nýsköpunarsamfélagið á Íslandi þrífst ekki án stuðnings stofnana sem mennta og þjálfa frumkvöðla framtíðarinnar. Háskólinn í Reykjavík styður við nýsköpun í öllu sínu starfi.“

Þá segir dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Startup Iceland góðan vettvang fyrir nemendur, starfsmenn og frumkvöðla sem eru að stofna eða reka sprotafyrirtæki.

Tveir viðburðir tengdir Startup Iceland verða haldnir í Háskólanum í Reykjavík. Hackathon , opin samkeppni í forritun, verður haldin í HR 1. og 2. júní og Unconference ráðstefna Startup Iceland verður haldin í háskólanum 3. júní.