Háskólinn í Reykjavík hefur samið við Sense ehf. um kaup, hönnun og uppsetningu á tækja- og stjórnbúnaði fyrir nýbyggingu skólans í Öskjuhlíð sem verður tekinn í notkun fyrir næsta skólaár.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sense en samkvæmt henni er samningurinn gerður í kjölfar útboðs sem Verkís hf. sá um fyrir Háskólann í Reykjavík og var Sense lægstbjóðandi.

Um er að ræða stjórnbúnað frá Crestron, skjávarpa frá NEC og miðlægt hljóð- og uppkallskerfi frá Bose og Biamp svo dæmi séu tekin.

Í tilkynningunni kemur fram að verkefnið nær yfir 47 kennslustofur, sex málstofur, tvo fyrirlestrarsali auk fundarherbergja. Undirbúningsvinna er þegar hafin, en uppsetning hefst í vor og verður lokið áður en að kennsla hefst í lok sumars. Byggingin er um 24 þúsund fermetrar í fyrsta áfanga.

„Við hjá Sense erum afar ánægð að taka þátt í uppbyggingu Háskólans í Reykjavík, ekki síst að fá tækifæri til að koma að verkefninu á fyrstu stigum þess. Þannig er hægt að þróa einfaldar lausnir í samvinnu við skólann, stytta uppsetningartíma og ná fram hagræðingu í búnaði,” segir Þorvaldur Einarsson, tækni- og þróunarstjóri Sense í tilkynningunni.