Magnús Ingi Erlingsson héraðsdómslögmaður gagnrýnir harðlega að ætlunin skuli vera að keyra lög um seðlabanka í gegn um þingið án þess að fyrir liggi nokkur framtíðarsýn um peningamálastjórnina. ,,Það er sérstakt í ljósi atburða sem leiddu til  setningu neyðarlaga að hér eigi að setja enn eitt laga ”hraðametið” í lagasetningu um svo mikilvægt mál," segir Magnús.

,,Í skjóli veikburða löggjafarvalds á að keyra lög í gegn sem munu  gegna veigamiklu hlutverki  til framtíðar fyrir efnahagslífið. Það virðist ekki eiga að nýta þá reynslu sem bankinn hefur af því að ganga í gegnum eitt allsherjarbankahrun. Það er einstakt tækifæri nú að læra af reynslunni og láta ný lög um seðlabanka taka mið af henni og nýta þá innlendu og  erlendu sérfræðinga sem sett sig hafa inn í efnahagsmálin á Íslandi sem ekki er ónýtt að hafa  við hendina við þá skoðun. Ísland er að verða fyrirmynd fyrir heimsbyggðina í viðbúnaðaráætlunum ríkja fyrir afleiðingum verstu hugsanlegu kreppu sem getur skollið á einstök efnahagskerfi. Ísland er jafnframt vegna bankahrunsins  að verða  eitt þekktasta vörumerki heimsins um þessar mundir. Orðspor af náttúru landsins hefur ekki beðið hnekki í bankahruninu.  Hugsanlega verður kreppan okkar helsta auðlind til framtíðar," segir Magnús.

Magnús benti á að mikilvægt sé að vanda til laga um seðlabankann, að sett verði  framtíðarmarkmið um peningamálastjórnina sem byggi  á reynslu undanfarinna ára einkum í ljósi brotalama á eftirliti. ,,Hugað verði að stefnu í  gjaldeyrisforðamálum og sett markmið um  tvíhliða  gjaldeyrissamninga eða samvinnu á því sviði við önnur ríki sem stutt geta við krónuna.

Það ætti að duga  að senda alþjóðasamfélaginu þau skilaboð að skipt verði um seðlabankastjóra eftir ákveðinn tíma eða að lokinni  faglegri úttekt á starfsemi bankans sem markar grundvöll lagasetningar til framtíðar til þess að efla traust á krónunni og peningamálastjórninni. Fljótaskrift á lögum nú í einhverju bráðræði og  í  pólitískum sandkassaleik skömmu fyrir kosningar er til þess fallið að setja stjórnmálin á Íslandi  á lægra plan, veikja trú á nýrri stjórn landsins  og þar með peningamálstjórninni. Það er einnig til þess fallið að  draga úr sjálfstæði bankans sem er mikilvægt að virða í því fárviðri sem  geisað hefur á Íslandi. Það fárviðri hefur skekkt alla sanngjarna umræðu um bankann og blindað mönnum sýn."