„Þeir sem aka óvarlega í umferðinni hægja ekki á sér við hraðahindranir. Þannig hafa þær takmörkuð áhrif á akstur þeirra sem við viljum einmitt ná til,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í borginni. Rætt er við Júlíus í nýjasta tölublaði FÍB-blaðsins . Hann telur það geta skilað betri árangri að bæta umferðina en að reyna að stýra hraða ökumanna með hraðahindrunum sem kosti borgina 100 milljónir á ári hverju.

„Á hverju ári fara um 100 milljónir í það að gera hraðahindranir á götunum. Ég tel nokkuð öruggt að það sé hægt að ná markmiðum um öryggari umferð með því t.d. að viðhalda betur og hafa betri tök á umferðarstjórnun í borginni með öðrum hætti en með því að gera umferðaræðar borgarinnar ógreiðfærari með hraðahindrunum og þrengingum.“

Júlíus Vífill bendir á að borgarráð hafi samþykkt tillögu Sjálfstæðismanna um að borgarbúar tileinki sér nýjar aðferðir við stjórn umferðar sem hafi verið að ryðja sér til rúms í erlendum stórborgum.

„Þær snúast í stuttu máli um það að stýra umferðarflæðinu og umferðarhraðanum með öðru en því einu að fjölga hraðahindrunum á götunum,“ segir hann.