*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 23. febrúar 2020 13:09

Hraðar hendur þarf við bankasölu

Stjórnvöld þurfa að hafa hraðar hendur eigi að ljúka sölu á hlut í Íslandsbanka á kjörtímabilinu.

Ástgeir Ólafsson
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið í byrjun mánaðarins að hann teldi nú þegar tímabært að ríkið myndi hefja undirbúning að sölu Íslandsbanka. Sagði hann að þrátt fyrir að ólíklegt væri að bókfært verð fengist fyrir bankann væri engu að síður rétt að losa um eignarhaldið í skrefum og nefndi 25% hlut í bankanum í því samhengi. Daginn eftir tók Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í sama streng þegar hún sagði að það væri skynsamlegt að ráðast í sölu á hlut í bankanum ef ágóðinn af sölunni yrði nýttur til innviðafjárfestinga.

Var þetta síður en svo í fyrsta skipti sem hugmyndir um sölu á hlut í Íslandsbanka eru viðraðar. Í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar segir meðal annars að eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé það umfangsmesta í Evrópu og það sé vilji ríkistjórnarinnar að leita leiða til að draga úr því. Þá greindi Bjarni einnig frá því í september að hann vildi hefja söluferli Íslandsbanka strax á næstu vikum en svo virðist sem ekkert hafi orðið af þeim fyriráætlunum.

Nú þegar tekið er að líða á seinni hluta kjörtímabilsins er ljóst að stjórnvöld þurfa að hafa nokkuð hraðar hendur við sölu á hlut í Íslandsbanka eigi að ljúka henni áður en oft stutt yrði til þingkosninga sem munu í síðasta lagi fara fram haustið 2021. Í þessu samhengi má nefna að skráning Arion banka á hlutabréfamarkað frestaðist árið 2017 vegna óvæntra þingkosninga. Í minnisblaði Bankasýslu ríkisins vegna Hvítbókar um fjármálakerfið sem birt var í nóvember árið 2018 segir einnig að undirbúningstími frumútboðs sé mjög langur og að söluferlið geti tekið 12–15 mánuði sem þýðir að verði áætlunum um sölu hrint í framkvæmd strax á næstu dögum myndi söluferlinu ekki ljúka fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári og gæti dregist fram í júní.

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að Bankasýslan telji líklegast að fyrsta sala ríkisins á eignarhlutum í bönkunum muni fara fram með frumútboði. Þar er hins vegar bent á að til þess að vekja eigi áhuga stórra erlendra fjárfesta þyrfti útboðið að vera 500–750 milljónir evra að stærð en til samanburðar var útboð Arion banka um 320 milljónir evra að stærð. Miðað við verðmat Capacent á 25% hlut í Íslandsbanka sem metinn er á um 27–36 milljarða króna, eða um 190–260 milljónir evra, er ljóst að útboð af þeirri stærðargráðu yrði í minna lagi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér