Á sýningunni eru bæði teikningar og þrívíð verk eftir Kristján og einnig verk sem eru á mörkum þess að teljast teikningar við fyrstu sýn. Eitt þeirra, Teikning 13 frá árinu 1989, er að uppistöðu grafít (efnið sem notað er í blýanta) sem fest er við vegg í sýningarsalnum. Þegar Kristján gengur yfir sýninguna með mér strýkur hann yfir verkið með fingurgómunum og sýnir mér grafítleifarnar á þeim.

„Ég kalla þetta teikningu út af efniviðnum,“ segir hann. „Grafít og pappír. Ég kalla það teikningu.“

„Þetta kalla ég líka teikningu,“ segir Kristján og bendir á það sem virðist vera lágmynd á veggnum. „Hér lími ég saman renninga af bókfellspappír og svo teikna ég með blýanti á kantinn.“

Flest verkin á sýningunni eru gerð eftir ákveðnum reglum en aðspurður segist Kristján ekki líta á þær sem ráðgátur sem áhorfendur eiga að leysa. „Nei nei, ég er bara að leika mér með þetta og spek­úlera í möguleikunum,“ segir hann og útskýrir fyrir mér myndaröðina Jafntíma línur – sem eru blekteikningar á pappír. „Þetta er teiknað með sjálfblekungi á þerripappír. Hver lína fær fimm sekúndur til að verða til þannig að styttri línan verður náttúrulega feitari og lengri línurnar grennri,“ segir hann.

Svipuð aðferðafræði er notuð í Hraðari og hægari línum Kristjáns. Misþykkar línur dregnar yfir þerripappír. „Hérna er ekki nein tímamæling,“ segir Kristján. Hér er ein lína dregin hraðar en sú næsta. Hraðar hægar, hraðar hægar.“

Peran kviknaði

Spurður að því hvernig hugmyndin á bak við verkin spratt upp segir Kristján að hún hafi fyrst og fremst verið afrakstur tilraunamennsku. „Ég fór bara að draga línur og sá að ef ég dró hana hægt þá varð hún þykkari. Þá kviknaði einhver pera,“ segir hann.

Við hlið teikninganna liggja tveir grjóthaugar í salnum sem virðast við fyrstu sýn alls ótengdir hinum verkunum en þegar þeir eru skoðaðir nánar er tengingin mjög skýr. „Þetta er líka hægar og hraðar,“ segir Kristján og bendir á verkin. „Þetta er sjávarmöl sem sjórinn er búinn að slípa í tíu til hundruð ára en þetta er grjót sem er malað í vél og brotið hratt nið­ur. Vélarmölin er svolítið dökk vegna þess að það þurfti að skola hana. Á endanum verður hún í sama lit og hitt grjótið.“ Jafnvel ef grjótið væri í sama lit þá væri munurinn á milli þeirra augljós. Hraðunnið vélargrjótið er gróft og oddhvasst á meðan fjörugrjótið er slípað og slétt.

Orsök og afleiðing

Við hlið þessarar teikningar má sjá Teikningu 1972, sem var unnin árið 1972 og er elsta verkið í sýningunni. „Þetta er flatarmálsjafna,“ segir Kristján og dregur fingurinn í hring eftir teikningunni. „Þessi flötur sem er teiknaður hérna, þessi hringur, er jafn stór og það sem hann lokar inni og jafn stór og það sem er fyrir utan hann. Þetta eru því þrjár jafnar flatamálsstærðir. Hver eining er 1.972 fersentimetrar, eftir árinu sem verkið var unnið.“

Stór hluti af sýningarrýminu fer undir smáar teikningar sem unnar eru með leiðréttingapappír (þ.e. tippexi). Þær bera titilinn Orsök og afleiðing þar sem leiðréttingarborð­ inn myndar neikvæða teikningu. „Þetta er orsökin og þetta er afleiðingin. Þetta hérna er þrykkið af þessu,“ segir Kristj­án og vísar til þess hvernig línur á neðri hluta teikningarinnar eru unnar úr fleti á efri hluta hennar. Orsök og afleiðing.

„Mér finnst bara gaman að sjá þessi verk. Þau standa enn fyrir sínu. Ég sný aldrei baki við neinum myndum sem ég hef gert,“ segir Kristján þegar ég spyr hann að því hvernig hann upplifir verkin, áratugum eftir að hann gerði þau.

Myndir þú segja að þú værir stoltur af þeim?

„Já. Ef ég vil vera það, þá get ég verið það,“ segir Kristján að lokum og hlær.

Sýning Kristjáns stendur til 24. október næstkomandi í i8 .