Tíu stærstu hafnirnar á Norðurlöndum, að Faxaflóahöfnum sf. og Þórshöfn í Færeyjum meðtöldum, hafa undirritað yfirlýsingu um samstarf og samvinnu á sviði umhverfismála, þar með talið loftslagsmála.

Í tilkynningu segir að markmið samkomulagsins sé að hafnirnar leggi sitt að mörkum í samræmi við Parísar samninginn.

Gísli Gíslason hafnarstjóri segir það svolítið misjafnt eftir höfnum á hvað áherslan er lögð, en á síðustu árum hafi umræðan um landtengingar skipa verið hvað efst á baugi.

„Háspennutengingar hafna eru mjög ofarlega á baugi bæði hérna og í Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi til dæmis.“

Hann segir samkomulag hafnanna tvímælalaust geta hraðað því verkefni. Þar ráði einkum tvennt förinni, annars vegar val á búnaði og hins vegar kostnaður.

Kostnaður mildast

„Kostnaður hefur aðeins verið að mildast,“ segir Gísli.

„Víða eru menn auðvitað með millispennutengingar fyrir smærri skip, en vandamálið við háspennutengingarnar var á tímabili eins og farsímavandinn. Það voru mismunandi tengingar sem voru boðnar í landi og um borð í skipunum, á þessum fáu stöðum sem þær voru.“

Nú orðið sé komin á ákveðin stöðlun í því.

„Það skiptir máli upp á það að skipin geti tekið tengil hvar sem er. Þetta verður að vera samræmt þar sem þetta er sett upp. Síðan má segja að í nýju skipin eru orðin móttækileg fyrir landrafmagni þannig að kostnaður minnkar við breytingar á eldri skipum.“

Gísli segir þetta vera þróun sem hefur verið tiltölulega hröð.

„Svo er hitt að það eru fleiri aðilar að bjóða búnað í háspennutengingar. Þar með eykst samkeppnin í því og þó þetta verði alltaf dýrt þá megum við vænta þess að kostnaður muni leita einhvers jafnvægis til lækkunar.“

Samstarf hafnanna tíu mun síðan snúast um fleiri umhverfisþætti, enda snerta umhverfismál á hafnarsvæðum fjölmarga þætti svo sem útblástur skipa, móttöku á sorpi, gæðum sjávar og ástandi setlaga á sjávarbotni. Með formlegu og auknu samstarfi stærstu hafna á Norðurlöndum er markmiðið að ná enn frekari árangri.

Loftslagsbókhald og vottanir

Gísli nefnir þar meðal annars loftslagsbókhald, sem Faxaflóahafnir hafa birt í þrjú ár og Gautaborg hefur einnig verið með.

„Síðan eru það umhverfisvottanir sem nokkrar af þessum höfnum eru með. Þar getum við séð fyrir okkur samræmingu eða samspil í markmiðasetningu.“

Hann segir að í þessu samstarfi muni menn stilla saman strengina eftir því sem áherslurnar eru hverju sinni.

„Hugmyndin hefur verið að undirstrika sérstaklega mikilvægi umhverfismála og síðan að auka upplýsingaflæði milli hafnanna um bestu leiðir í því sem áhugi er fyrir á hverjum stað.“

Hafnirnar tíu eru í Kaupmannahöfn og Malmö, Ósló í Noregi, Stokkhólmi, Gautaborg og Helsingjaborg í Svíþjóð, Helsinki í Finnlandi, Esbjerg og Árósum i Danmörku, Þórshöfn í Færeyjum og Faxaflóahafnir hér í Reykjavík.