Fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi hefur verið hraðari hér á landi en í samanburðarlöndum okkar og voru um 18 þúsund einstaklingar á endurhæfingar- eða örorkulífeyri hér á landi árið 2015. Er það um 8,5% mannfjöldans, en árið 1995 voru þeir 4,3% og árið 1986 voru þeir 2,3% að því er Guðrún Ragnheiður Jónsdóttur, sérfræðingur hjá Virk, starfsendurhæfingarsjóði, segir frá í grein í ársriti sjóðsins.

„Árið 1995 var Ísland með lægstu útgjöldin en þau hafa aukist stöðugt,“ segir Guðrún í greininni og vísar í greiðslur Tryggingastofnunar og forvera hennar til þeirra sem ekki geta unnið vegna örorku. „Við erum nú jöfn Dönum og aðeins Norðmenn eru með hærri útgjöld en þeir eru með langhæstu útgjöldin.“

Segir hún að það megi sjá svipaða þróun ef horft er á útgjöld vegna örorku sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Ísland hafi verið með lægsta hlutfallið árið 1995, en árið 2014 hafi hlutfallið orðið hæst meðal samanburðarlandanna.

Þó hún segi erfitt vegna mismunandi bótakerfa að gera samanburð á milli landa þá sýnir hún fram á tölfræði yfir að Finnar, Svíar og Hollendingar hafi náð töluverðum árangri í að ná niður útgjöldum vegna örorku. Hefur jafnvel sumum þeirra tekist að stemma stigu við fjölgun öryrkja.