*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 9. júní 2021 19:13

Hraðari hleðsla en hjá Tesla

Ný hleðslustöð N1 skilar allt að 350kW hleðslu á einn bíl, því mesta sem býðst á Íslandi. Setja upp 20 öflugar stöðvar á næstunni.

Júlíus Þór Halldórsson
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, Magnús Júlíusson, forstöðumaður Orkusviðs N1, Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdarstjóri N1, Berglind Bergþórsdóttir, mannauðsstjóri Öskju og Jónas Kári Eiríksson, forstöðumaður vörustýringar Öskju.
Aðsend mynd

Öflugasta hraðhleðslustöð landsins mun rísa við þjónustustöð N1 við Staðarskála í sumar. Stöðin mun geta hlaðið einn bíl á allt að 350kW, sem við bestu aðstæður gæti skilað um 200 kílómetra drægi á 5 mínútum. Hingað til hafa öflugustu stöðvar landsins verið svokallaðar ofurhleðslustöðvar Tesla, sem veita 250kW á hvern tengil en eru aðeins aðgengilegar bifreiðum Tesla.

N1 hefur samið við bílaumboðið Öskju um kaup á 20 hraðhleðslustöðvum, sem verða settar upp á þessu og næsta ári. Allt að 6 stöðvar munu rísa við Staðarskála í sumar og tvær í Borgarnesi, og í kjölfarið verða settar upp stöðvar á Suðurlandi.
Ólíkt flestum hleðslustöðvum sem fyrir eru verður þeim raðað upp eins og bensíndælum, þannig að lagt er meðfram stöðvunum en ekki í eiginlegt stæði, sem auðvelda á aðgengi lengri bíla.

Setja upp 20 stöðvar næstu 18 mánuði
Aðeins ein þeirra verður þó af öflugustu gerð, sem er 400kW í heild og getur hlaðið tvo bíla samtímis, þá á 200kW hvorn, eða einn á 350 eins og áður kom fram. Aðrar stöðvar verða 200kW í heild, en verða þó auð-uppfæranlegar í 400 að sögn Magnúsar Júlíussonar, forstöðumanns orkusviðs N1.

Hann býst við að klára uppsetningu stöðvanna í Borgarnesi með haustinu, en flestar eða allar eftir það komi upp á næsta ári. „Næsta ár verður mikið framkvæmdaár í þessu. Þessum 20 stöðvum verður komið fyrir á næstu 18 mánuðum, og hugsanlega meiru til," segir hann og bætir við að félagið ætli sér stóra hluti á þessu sviði.

Hingað til hafa stöðvar aðrar en frá Tesla að hámarki verið 150kW hér á landi. Fyrsta kynslóð hraðhleðslustöðva var 50kW og hlóð aðeins einn bíl í einu, og þær má finna í flestum bæjum á hringveginum og víðar. Næsta kynslóð, sem unnið er að því að setja upp víðsvegar um landið með styrk frá Orkusjóði er 150kW í heild og getur veitt því öllu á einn bíl, eða skipt til helminga á tvo.

Fæstir bílar taka yfir 150kW
Hin hliðin á hleðslujöfnunni er svo hvað bíllinn getur tekið. Eldri bílar taka flestir aðeins 50kW, og fæstir bílar í dag taka meira en 150kW við bestu aðstæður, og þá aðeins við nokkuð þrönga hleðslustöðu, frá um 20 til 50%.

Eini bíllinn sem ræður við 350kW hleðslu í dag er Porsche Taycan. Hinn vinsæli Tesla Model 3 getur hlaðið á 250kW, og margir væntanlegir bílar taka um eða yfir 200kW. Hámarksafl nýju stöðvarinnar mun því lítið nýtast fyrst um sinn, en getan til að hlaða tvo bíla samtímis á 200kW mun þó hugsanlega koma sér vel fyrir suma strax í upphafi.

Stöðvar N1 verða settar upp án beinna styrkja, og eru því til viðbótar við þær ellefu 150kW stöðvar sem rísa munu í ár með styrk Orkusjóðs, og sjö 250kW ofurhleðslustöðvar Tesla sem einnig verða teknar í notkun á þessu ári. Alls verða því á þriðja tug nýrra stöðva - sem allar geta hlaðið tvo eða fleiri bíla og verða allar 150kW eða öflugri - settar upp fyrir árslok.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • 24 félög hafa nýtt sér greiðsluskjóls úrræði stjórnvalda. Úrræðið gildir í eitt ár og standa sum félögin frammi fyrir að skjólið renni sitt skeið á næstu vikum.
  • Fjallað er um horfur í flugi og ferðaþjónustu næstu árin. 
  • Kafað er ofan í saumana á kaupum Baader á meirihluta í Skaganum 3X.
  • Umfjöllun um málefni Lindarhvols.
  • Rætt er við Þór Sigfússon í tilefni tíu ára afmælis Íslenska sjávarklasans.
  • Fjallað er um yfirstandandi útboð Íslandsbanka
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs.
Stikkorð: N1 rafbílar hleðslustöðvar