Heildarfjöldi fasteigna á söluskrá hefur farið minnkandi undanfarin misseri, samkvæmt tölum Seðlabankans. Samkvæmt tölum frá því í júní voru um 3.300 eignir á söluskrá, en síðasta haust voru þær í kringum 4.000.

Seðlabankinn byggir þessa útreikninga á gögnum af fasteignavef mbl.is. Áberandi samdráttur hefur verið í fjölda bæði einbýlishúsa og íbúða í fjöleignarhúsum á söluskrá undanfarið hálft ár. Tímabundin fjölgun átti sér stað í fjölda fasteigna á söluskrá á síðasta ári, en nú virðist fjölgunin vera gengin til baka. Fjöldi eigna á söluskrá náði sínu hæsta gildi í byrjun árs 2010 þegar 5.500 eignir voru á söluskrá.

Meðaltíminn sem eignir eru á söluskrá hefur ekki veirð styttri síðan árið 2008 samkvæmt tölum Seðlabankans. Meðaltími á söluskrá var um 5 mánuðir í júní, en var um 9 mánuðir um áramótin. Hæst fór meðaltíminn í 40 mánuði í upphafi árs 2010, en árið 2007 var meðaltími á söluskrá á bilinu 3-4 mánuðir.