Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins mældist 6,2%. „Þetta talsvert kröftugur hagvöxtur og sá hraðasti sem mælst hefur í þessari uppsveiflu skv. tölum sem Hagstofan birti í morgun,“ segir í frétt Greiningar Íslandsbanka . Hagvöxturinn er jafnframt sá mesti sem mælst hefur í nokkru landi innan EES svæðisins (ESB ásamt Íslandi, Noregi, Liechtenstein og Sviss).

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun þá var hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi 10,2% - en þó eru oft miklar sveiflur milli ársfjórðunga - og því bendir Greining betra að horfa til lengri tíma þegar þróun hagkerfisins er metin.

Hagvöxtur nokkuð yfir spár

Greining Íslandsbanka bendir á að hagvöxtur fyrstu níu mánaða ársins eru „nokkuð yfir því sem flestar opinberar spár hafa hljóðað upp á fyrir árið í heild. Þannig spáðum við 5,1% hagvexti á árinu í nýjustu spá okkar sem birt var í september sl. og Seðlabankinn spáir 5,0% hagvexti í sinni nýjustu spá sem birt var samhliða vaxtaákvörðun bankans um miðjan nóvember sl.“

Þessar tölur benda til þess að framleiðsluspennan í hagkerfinu hafi myndast nokkuð hraðar en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nýjustu spá sinni og að hagvaxtartölurnar styðja við þá skoðun að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum.

Þjóðarútgjöld vaxa hratt

Þjóðarútgjöld hafa vaxið nokkkuð hratt eða um 9,3% á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. „Sú þróun er þó ekki nema lítillega umfram okkar spá, en við reiknuðum með 8,8% vexti þjóðarútgjalda á þessu ári í það heila. Seðlabankinn spáir einnig nokkuð hröðum vexti þjóðarútgjalda eða 8,7%,“ segir í greiningu bankans.

Einnig jókst einkaneysla talsvert á fyrstu níu mánuðum ársins eða um 6,7%. Að baki liggur bætt fjárhagsleg staða heimilanna m.a. vegna mjög mikils vaxtar í kaupmætti ráðstöfunartekna. Er einkaneysluvöxturinn skv. tölum Hagstofunnar nokkuð undir spám fyrir árið í það heila, en við spáum 8,1% vexti og Seðlabankinn 7,6% vexti. Tölur Hagstofunnar eru hóflegar m.v. það sem lesa má úr kortaveltutölum, innflutningstölum og öðrum þáttum sem segja til um þróun einkaneyslu,“ tekur Greining Íslandsbanka fram.

Ferðaþjónustan á drjúgan hlut í myndarlegum hagvexti

Fáir hafa orðið varhuga af gífurlega hröðum vexti ferðaþjónustunnar á Íslandi og setur hún sitt mark á þróun utanríkisviðskipta í tölum Hagstofunnar, og á drjúgan hlut í myndarlegum hagvexti um þessar mundir. „Alls óx útflutningur um 10,0% á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs, sem er nokkru hraðari vöxtur en við áætluðum fyrir árið í heild. Þar af jókst þjónustuútflutningur um 17,0% á meðan vöxtur vöruútflutnings var aðeins 3,3%. Vöxtur innflutnings á sama tíma var 16,6%. Meira samræmi var á milli vöru- og þjónustuinnflutnings en útflutnings. Jókst vöruinnflutningurinn um 14,7% en þjónustuinnflutningur um 20,3%.

Framlag utanríkisviðskipta er hagfelldara á fyrstu þremur ársfjórðungum en spár höfðu áætlað, og lítur út fyrir að sama muni eiga við um árið í heild, þökk sé ótrúlegum vexti í ferðaþjónustu,“ segir að lokum í greiningu Íslandsbanka.