Til að mæta eftirspurn íbúa í kórahverfi í Kópavogi hefur Arion banki komið tímabundið fyrir hraðbankabíl við verslun Krónunnar í Vallakór, en fyrir var enginn hraðbanki á svæðinu þar sem eru um 20 þúsund íbúar. Gunnlaugur Bragi Björnsson á samskiptasviði Arion banka segir að í undirbúningi sé varanleg lausn með uppsetningu hraðbanka í húsnæði við Vallakór 4 að því er mbl.is greinir frá.

En þangað til verður bilið brúað með því að eina sérútbúna hraðbankabíl landsins hefur verið lagt við krónuna, en áætlað er að hann verði þar næstu fjórar vikurnar. „Hann hentaði mjög vel til að ná að bregðast við þessu strax á meðan það er verið að undirbúa fastan hraðbanka,“ segir Gunnlaugur, en bílinn var tekinn í notkun síðasta sumar.

Hefur hann til dæmis verið notaður á Secret Solstice og Hátíð hafsins.