Ökumenn rafbíla geta nú sótt sér áfyllingu á bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við IKEA í Garðabæ. Þetta er sjötta stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung við Miklubraut og á Fitjum í Reykjanesbæ.Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orku náttúrunnar.

IKEA hyggst bjóða hleðslustöðina gestum IKEA gjaldfrjálsa og vonast er til að hún nýtist gestum vel.

Tíu nýir rafbílar á mánuði

Frá áramótum hafa í hverjum mánuði bæst tíu rafbílar að jafnaði við bílaflota Íslendinga. Fjölbreytni í framboði rafbíla hefur líka aukist verulega síðustu mánuði.

Hjá nágrönnum okkar Norðmönnum er fjöldi rafbílategunda á markaði nú kominn í 21 gerð. Svipuð þróun er hér á landi. Rekstur rafbíla sparar bæði peninga og útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél þar sem hægt er að bera saman orkukostnað rafbíla og annarra og hversu miklu minni útblástur gróðurhúsalofttegunda er við akstur þeirra en hefðbundinna bifreiða.