*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 31. maí 2021 15:34

Hraðlarnir góður undirbúningur

Teymi sem hafa farið í gegnum hraðla hjá Icelandic Startups eru áberandi í vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs.

Ritstjórn
Hópurinn sem tók þátt í Startup SuperNova á síðasta ári.
Aðsend mynd

Teymi sem fóru í gegnum hraðla og frumkvöðlakeppnir hjá Icelandic Startups á þessu og seinasta ári eru áberandi í vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs. Tæpur þriðjungur verkefna sem fengu úthlutun í flokknum Sproti fóru í gegnum fjóra hraðla á vegum Icelandic Startups á þessu og seinasta ári, auk þess sem eitt verkefni tók þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandic Startups.

Á seinasta ári stóð Icelandic Startups fyrir hröðlunum Startup SuperNova, Til Sjávar og sveita og frumvöðlakeppninni Gullegginu. Á þessu ári hafa hraðlarnir Orkídea, Snjallræði og Hringiða svo verið haldnir.

Fimmtán verkefni fengu úthlutun úr Tækniþróunarsjóði í flokknum Fræ, þar af Krakkakropp sem fór í gegnum Orkídeu og Surova sem fór í gegnum Hringiðu.

Þá fengu nítján verkefni úthlutun í flokknum Sproti og þar af eru Marea og Horseday sem fóru í gegnum Til sjávar og sveita, Hemp pack sem fór í gegnum Hringiðu, SoGreen sem fór í gegnum Snjallræði, SVAI sem fór í gegnum Startup SuperNova og svo Showdeck sem tók þátt í Gullegginu.

Vöxtur veitir lengra komnum verkefnum styrki og þar fá styrki Nordverse og Genki sem fóru í gegnum Startup Reykjavík á sínum tíma og Icewind sem tók þátt í Hringiðu á þessu ári.

„Mér finnst þetta flottur árangur og til marks um það hvað hraðlarnir skipta miklu máli í að þroska hugmyndir og verkefni. Þau verkefni sem hafa varið í gegnum hraðal hjá okkur hafa forskot og það er flott að sjá þessi verkefni tryggja sér þessa nauðsynlegu fjármögnun og sýna í leiðinni hversu vel virðiskeðja nýsköpunar á Íslandi er að virka,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, í tilkynningunni.