Veitingastaðurinn Austurlandahraðlestin, sem sérhæfir sig í indverskri matargerð, hagnaðist um 25,4 milljónir króna á síðasta rekstrarári, samanborið við 20,7 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu 448,1 milljón króna samanborið við 421,9 milljónir króna árið á undan. Rekstrarhagnaður nam 35,9 milljónum í fyrra. Eignir námu rúmlega 139 milljónum króna um síðustu áramót og eigið fé félagsins var 40,9 milljónir.

Launagreiðslur til starfsmanna námu 178,9 milljónum króna. Félagið greiddi 7,5 milljónir króna í arð til hluthafa sinna á árinu 2017, en árið áður var enginn arður greiddur til hluthafa. Chandrika Gunnur Gunnarsson á stærstan hluta í Austurlandahraðlestinni en hún á 75% hlut í félaginu í gegnum félagið Austur-Indíafélagið ehf.