Alþýðusamband Íslands (ASÍ) spáir því að hagvöxtur verði 4,9% á þessu ári, sem yrði mesti hagvöxtur hérlendis frá árinu 2007 þegar hann mældist 9,5%. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá hagdeildar ASÍ, sem birt var í vikunni, segir að  ferðaþjónustan, aukin einkaneysla og fjárfesting muni drífa hagvöxtinn áfram næstu ár. Á þessari öld hefur hagvöxtur aðeins tvisvar verið meiri en 4,9% eða árið 2007, eins og áður sagði, og árið 2004 þegar hann mældist 8,2%. Árið 2009, þegar kreppan var í hámarki, var hagvöxtur neikvæður um 4,7%.

Spá ASÍ er töluvert bjartsýnni en spár sem Hagstofan og Seðlabankinn birtu í febrúar. Í Peningamálum Seðlabankans er gert ráð fyrir 4,2% hagvexti á þessu ári og í endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir 4% hagvexti. Hagstofan og Seðlabankinn gera ráð fyrir að árið 2018 verði hagvöxtur 2,9% en ASÍ gerir ráð fyrir 3,5% hagvexti það ár.

Alþýðusambandið sker sig nokkuð úr þegar kemur að verðbólguspá. Sambandið gerir til dæmis ráð fyrir 1,9% verðbólgu á þessu ári á meðan Hagstofan og Seðlabankinn spá því að verðbólgan verði 2,3 til 2,5%, sem er reyndar undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans.  Þá gerir ASÍ ráð fyrir 3,1% verðbólgu á næsta ári á meðan Hagstofan og Seðlabankinn gera ráð fyrir 3,9 til 4,1% verðbólgu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .