Um áramótin flutti Halldór Þorkelsson sig frá PwC til að taka við sem framkvæmdastjóri Capacent á Íslandi en hann segir fyrirtækið vel þekkt á íslenskum markaði, meðal annars í ráðningu og ráðgjöf um starfsmannahald .

Þó hann sé spenntur að hefja störf fyrir Capacent er onum eru minnisstæðar ferðir víða um heim fyrir PwC og til að mynda þunglamalegri stjórnsýsluhættir víða en við þekkjum hér á landi.

„Við vorum að aðstoða viðskiptamenn við að setja upp starfsemi í Rúmeníu. Starfsemin þurfti ýmiss konar opinber leyfi og heimildir en á þessum tímapunkti var landið að ganga í inn í Evrópusambandið.

Til að afla leyfanna þurfti að setjast niður með allt frá tveimur embættismönnum upp í þrjátíu manna fundi, þó að efniviðurinn væri kannski ekkert breyttur, heldur var bara verið að ræða við mismunandi stjórnvald hverju sinni.“

Halldór er giftur Hildi Dungal, sem einnig er lögfræðingur og starfar hjá innanríkisráðuneytinu ásamt því að sitja í stjórnum Vodafone og Nýherja, og saman eiga þau þrjú börn. Halldór hefur mjög gaman af því að hlaupa í frítíma sínum.

„Ég hef undanfarin ár verið að dúlla mér í maraþonhlaupum og reyni að heimsækja nýjar borgir á hverju ári til að hlaupa þar maraþon. Þetta er ágætismótvægi við vinnuna,“ segir Halldór en hann hóf hlaupaferilinn seint og hálfóvænt.

„Það er gaman að segja frá því að fyrsta ákvörðunin um þetta var bara tekin í gleðskap með vinum, og þá hafði ég aldrei hlaupið tíu kílómetra, hvað þá eitthvað meira.

Þetta var árið 2011 en þá ákváðum við nokkrir félagar að fara í maraþon í New York, en þegar við skráðum okkur, þá hafði enginn okkar komið neitt nálægt þessu og fyrirvarinn skammarlega lítill.

En við lifðum þetta allir af og enduðum á að ánetjast þessu svolítið. Síðan þá er ég búinn að hlaupa hér og þar og jafnframt tekið Laugaveginn hérna heima tvisvar, sem var alveg dásamleg upplifun.

Það var svolítið svona eins og að hraðspóla í gegnum spennumynd, það er ótrúlegt hvað þetta er allt öðruvísi að gera þetta í svona látum, þú sýgur í þig umhverfið á allt að því ólöglegum hraða.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .