Gengi bréfa í Icelandair Group hefur lækkað um tæp 28% frá áramótum. Lækkunina má rekja til ýmissa þátta, en afkomuspá félagsins hefur til að mynda versnað.

Í dag lækkaði félagið um 3,40% í kauphöllinni og má því velta því fyrir sér hvort að nýlegar jarðhræringar við Kötlu hafi hrætt fjárfesta.

Rétt fyrir klukkan 2 í rótt hófst öflug jarðskjálftahrina norðarlega í Kötluöskjunni. Tveir skjálftar mældust yfir fjórum stigum, fáeinir um þrjú stig, en á annan tug skjálfta hafa mælst í kjölfarið.

Jarðskjálftarnir eru með þeim öflugustu sem hafa mælst á svæðinu í langa tíð, en þeim fylgir líklegast ekki eldgosaórói eða hlaupórói að svo stöddu.

Mikilvægt verður þó að fylgjast með fjallinu, enda er um að ræða eitt virkasta eldfjall á Íslandi. Allt að 98 ár eru liðin siðan eldstöðin gaus síðast, og ætti það ekki að koma neinum á óvart ef að fjallið lætur til skara skríða á næstu árum. Vanalega hafa einungis 13 til 80 ár liðið milli gosa.