Landsbankinn getur ekki staðið við skuldbindingar sínar í erlendri mynt og færi í þrot ef hann þyrfti að byrja að greiða niður 1,5 milljarða punda lán við gamla bankann í byrjun næsta árs. Þetta er jafnvirði rúmra 290 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins. Skuldin varð til við færslu eigna úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja.

Af þessum sökum var óskað eftir því á fundi í London í dag með fulltrúum Landsbankans, slitastjórn gamla bankans og fulltrúum forgangskröfuhafa, þ.e. frá stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi, auk fulltrúa Seðlabanka Íslands. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, óskaði eftir því í sumar að semja á ný um afborgarnir af skuldum bankans. Þetta er fyrsti fundur fulltrúa breskra og hollenskra stjórnvalda síðan niðurstaða fékkst í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum í janúar.

Breska dagblaðið Guardian fjallar um málið á vef sínum nú í kvöld og segir að fram hafi komið á fundinum að afborgunarferillinn af lánum Landsbankans sé svo stífur að það geti komið niður á efnahag landsins.

Guardian rifjar upp að ekki hafi fengist stuðningur við svo knappar afborganir innan Seðlabankans og hafi þar verið kvatt til þess lengt verði í gjalddögum skuldabréfa bankans eða lánin endurfjármögnuð.

Um miðjan ágúst greindi Morgunblaðið frá því að 50 milljarða króna vantaði að lágmarki í gjaldeyri upp á að Landsbankinn geti greitt lánið að fullu. Blaðið sagði jafnframt að slitastjórn gamla bankans geri engu að síður ráð fyrir fullum endurheimtum enda skuldabréf bankans tryggt með sérstökum veðsamningi og Landsbankinn í eigu rikisins. Þá sagði að stór hluti erlendra eigna Landsbankans, s.s. 188 milljarða lánasafn, vera eignir sem óljóst sé hvort hægt verði að breyta í laust fé í gjaldeyri áður en kemur að þungu afborgunarferli bankans.