Alþjóðabankinn telur að útbreiðsla ebólu geti haft gríðarleg skemmandi áhrif á hagkerfi Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne. Nú þegar hefur 2.461 látist af völdum ebólunnar í vesturhluta Afríku. Samkvæmt greiningu bankans munu milljarðar Bandaríkjadala tapast fyrir lok næsta árs ef útbreiðslan heldur áfram. Í versta falli muni hagvöxtur minnka um 2,3 prósent í Gíneu, 8,9 prósent í Síerra Leóne og 11,7 prósent í Líberíu.

„Meginkostnaðurinn við þennan sorglega faraldur eru dauðsföll og þjáning,“ segir Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans. Hann segir að hægt sé að sporna við efnahagslegum áhrifum ef alþjóðasamfélagið bregst hratt við. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að Bandaríkin hyggist taka þátt í baráttunni gegn ebólu, sem sé ógn við öryggi á heimsvísu. Meðal aðgerða er að þrjú þúsund hermenn verða sendir til Vestur-Afríku og heilsugæslustöðvar byggðar.