*

föstudagur, 29. maí 2020
Fjölmiðlapistlar 30. júní 2019 13:43

Hræðilegar myndir

„En það er rétt hjá Agli, að sumt þurfa menn að sjá einmitt vegna þess að það er óhugnanlegt.“

Andrés Magnússon

Egill Helgason birti í gær nótu á bloggi sínum um átakanlega fréttamynd frá AP af föður og tæplega tveggja ára dóttur hans, sem drukknað höfðu í Rio Grande í tilraun til að komast frá Mexíkó til Bandaríkjanna. Myndin hefur vakið gríðarlega athygli og beint athygli að ófremdarástandinu við landamærin og herta afstöðu stjórnvalda beggja landa gagnvart þeim sem reyna að komast norður yfir í leit að betra lífi.

Egill var þó ekki beinlínis að víkja að innflytjendamálunum þar, heldur því að þegar svo áhrifamikil mynd er birt í fjölmiðlum um allan heim - henni hefur verið líkt við myndir á borð við nöktu telpuna í Víetnam eða drukknaða drenginn í flæðarmálinu í Tyrklandi -  skuli áhrifamesti fjölmiðill heims kinoka sér við það: „Hann hylur myndina - hylur sannleika sem er óþægilegur og getur hreyft við okkur."

Þarna á Egill vitaskuld við Facebook. Félagsmiðillinn tók ekki fyrir birtingu myndarinnar, en huldi hana með orðsendingu um að myndefnið kynni að vera óþægilegt. Það er svo undir notandanum komið að smella á til þess að afhjúpa myndina.

Nú veit fjölmiðlarýnir svo sem ekki fyrir víst hvort að Facebook tók ritstjórnarákvörðun um að hylja myndina eða hvort það gerðist með vélrænum hætti. Þar eru ýmsar myndir huldar með þessum hætti, en félagsmiðillinn sætti á sínum töluverðri gagnrýni fyrir að sleppa alls kyns óhugnaði í gegnum síur sínar, án tillits til áhrifanna á lesendur. Það var mikið til í þeirri gagnrýni og rétt hjá Facebook að grípa til slíkra ráðstafana.

Hins vegar vandast í því, eins og Egill bendir á, þegar um er að ræða hræðilega mynd, sem einmitt á erindi við fólk vegna þess hve hræðileg hún er. Hún segir ekki alla sögu um margbrotið ástandið við landamærin og segir ekki einu sinni hálfa sögu um örlög feðginanna. En hún er vísir að hinni stóru frétt þaðan, sem fæstir hafa gefið gaum.

* * *

Það er hins vegar erfiðara að fullyrða að Facebook hefði einmitt átt að taka ritstjórnarákvörðun um að myndin birtist óhulin. Facebook vill helst ekki vera fjölmiðill, heldur fjölmiðlaveita, og hefur lengst af forðast að taka ritstjórnarákvarðanir, sem herma mætti upp á fyrirtækið. Þess í stað er mest traust lagt á hin ekki mjög óskeikulu algrím, þó vissulega megi finna stöku dæmi um ákvarðanir.

Þarna eru menn enn og aftur komnir að spurningunni um hliðvörslu fjölmiðla, sem margir telja að hafi í raun horfið með útbreiðslu netsins.

Hefðbundnir fjölmiðlar hafa flestir reglur um myndbirtingar, sem vakið geta óhug hjá lesendum. Hjá mörgum dagblöðum eru t.d. ekki birtar fréttamyndir af líkum á útsíðum nema sérstök ritstjórnleg ástæða þyki til, en á innsíðum gætir yfirleitt ekki sömu viðkvæmni. Eins vara sjónvarpsstöðvarnar nær allar við því ef framundan eru óhugnanleg myndskeið. Þar hafa menn bæði í huga að fólk er misviðkvæmt fyrir óhugnanlegum myndum og að þær beri ekki sjálfkrafa fyrir augu barna.

En það er rétt hjá Agli, að sumt þurfa menn að sjá einmitt vegna þess að það er óhugnanlegt.

Þarf raunar ekki myndir til. Þannig varð frægt við stríðslok í Evrópu þegar bandaríski útvarpsfréttamaðurinn Edward R. Murrow lýsti í fyrsta sinn í útvarpi aðkomunni í Buchenwald með tilfinningaríkum og myndrænum hætti en sagði að lokum: „Hafi ég misboðið hlustendum með þessum fremur vægu lýsingum frá Buchenwald þá þykir mér það síður en svo miður."

* * *

Athygli fjölmiðlarýnis var vakin á því að nýverið hefði verið lögfest bann við hljóðritunum í réttarsölum nema á vegum dómsins sjálfs. Þar virðist gengið talsvert lengra en í nágrannalöndunum og ekki vikið að því að fjölmiðlar fái sérstakar undanþágur á. Hins vegar má dómari veita undanþágur ef sérstaklega stendur á, svo með heppni getur vel skapast hefð um það.

Þetta kom undirrituðum raunar óþægilega á óvart, aðallega af því að honum hafði verið ókunnugt um að hljóðritanir væru þar heimilar á bekkjunum. Að hugsa sér allar þær hraðrituðu minnisbækur, sem yðar einlægur fyllti að óþörfu á dögum sínum í dómsmálafréttum! Reglur sem þessar, sem ekki eru ókunnar í öðrum löndum, miðast fyrst og fremst við það að gæta þess að réttarhaldið sjálft verði ekki fyrir truflun. Örðugt er að skilja hvernig hljóðritanir gera það fremur en skrjáf og flett með penna og minnisblokk. Svo þá hljóta einhver önnur sjónarmið að búa að baki, en þau eru ekki ljós af laganna hljóðan eða greinargerð frumvarpsins, nema hvað að þar er einnig og sérstaklega bannað að streyma þinghaldi í þágu réttaröryggis, enda verra ef vitni gætu samræmt vitnisburð sinn með þeim hætti.

Það er mikilvægt fyrir réttarríkið að þinghald í dómum landsins sé opið (nema sérstakar ástæður séu til annars) og að fjölmiðlar geti greint almenningi frá réttarhöldum af nákvæmi. Dómarar geta sem fyrr segir nýtt sér heimildarákvæði laganna til þess að falla frá banninu, en betra væri auðvitað að það væri á hinn veginn líkt og var í gömlu lögunum. Að minnsta kosti hvað fjölmiðla áhrærir, en þeim er í mörgum löndum ætlað sérstakt svigrúm til fréttaflutnings úr dómssölum.