Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að sér lítist mjög vel á hugmyndir norskra fjárfesta undir forystu Endre Røsjø um að setja 20 milljarða íslenskra króna í langtímafjárfestingu í íslensku atvinnulífi.

Ekkert liggi þó fyrir um aðkomu íslenskra lífeyrissjóða að slíkum sjóði. Sjálfir hafi lífeyrissjóðirnir í hyggju að koma á fót um 50 til 75 milljarða sjóði sem hefði það verkefni að endurreisa atvinnulífið. Þann sjóð á að stofna í október.

Hrafn fundaði um þetta mál í gær með Røsjø, Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Ingjald Ørbeck Sørheim norskum lögmanni. Morgunblaðið greindi frá þessu í morgun.

Kynna sér málið betur eftir helgi

Hrafn segir í samtali við Viðskiptablaðið að Margeir Pétursson hafi haft milligöngu um fundinn. Hann segir að Norðmennirnir hafi á fundinum farið yfir sínar hugmyndir um stofnun endurreisnarsjóðs. Yfirmaður slíks sjóðs yrði íslenskur og kostnaði og þóknanatekjum yrði haldið í lágmarki.

Mögulegt samstarf norska sjóðsins og íslenskra lífeyrissjóða var rætt.

Hrafn segir að fulltrúar íslenskra lífeyrissjóða fagni þessu frumkvæði Norðmanna og telji að þarna geti verið mögulegur samstarfsvettvangur. Engar ákvarðanir hafi þó verið teknar.

Ákveðið hafi verið að skiptast á gögnum og verður málið frekar kynnt stjórnum íslenskra lífeyrissjóða eftir helgi.