Hrafnhildur Bragadóttir
Hrafnhildur Bragadóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Hrafnhildur Bragadóttir lögfræðingur hefur verið ráðin sviðsstjóri stefnumótunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun. Meðal verkefna hennar verða gerð og framfylgd landsskipulagsstefnu og strandsvæðisskipulags og umsjón með miðlun upplýsinga og fagþekkingar og rannsóknar- og þróunarstarfi á vegum Skipulagsstofnunar.

Hrafnhildur lauk M.A. prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 2008 og LL.M. námi í umhverfisrétti frá Duke University School of Law 2015. Hún starfaði sem lögfræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands - Environice frá 2013 og sem lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun á árunum 2009 til 2013.

Þá hefur hún verið stundakennari í alþjóðlegum og íslenskum umhverfisrétti við lagadeild Háskóla Íslands og unnið að rannsóknum í loftslagsrétti og umhverfisrétti við Lagastofnun Háskóla Íslands og Harvard Law School. Hrafnhildur hefur þegar hafið störf.