Hrafnhildur Hafsteinsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf markaðs- og gæðastjóra hjá Hjallastefnunni, en síðastliðin þrjú ár hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu. Í tilkynningu um ráðninguna segir að Hrafnhildur muni stýra markaðs- og gæðamálum, sjá um viðburði, samskipti við innlenda og erlenda fjölmiðla,  innleiðingu umbótaverkefna ásamt yfirsýn yfir þjálfun starfsfólks og uppbyggingu á þeim þætti í starfinu.

Hrafnhildur mun taka við stöðu markaðs- og gæðastjóra Hjallastefnunnar á næstu vikum en sinna starfi framkvæmdastjóra FKA þar til ráðið hefur verið í hennar stað. Hún segist kveðja FKA stolt yfir þeim árangri sem náðst hefur og þeim mikilvægu verkefnum sem félagið standi fyrir.

,,Hjallastefnan hefur unnið gríðarlega öflugt starf sem aukið hefur á fjölbreytni í skólastarfi.  Ég hlakka til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og þeim vexti sem fram undan er og að ganga til liðs við þann flotta hóp fólks sem þarna vinnur,” er haft eftir Hrafnhildi í tilkynningunni.

Hrafnhildur er með PLD gráðu frá IESE Business School í Barcelona, B.A. gráðu í almannatengslum frá Auckland University of Technology á Nýja Sjálandi og IAA gráðu í markaðs- og auglýsingafræðum frá IACT í Kuala Lumpur, Malasíu. Hrafnhildur er einnig með gráðu í markþjálfun frá Háskólanum í Reykjavík. Áður en hún tók við stöðu framkvæmdastjóra FKA starfaði hún í níu ár sem verkefnastjóri MBA náms við Háskólann í Reykjavík og  þar áður í fimm ár sem kynningarstjóri Námsgagnastofnunar.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar segir í tilkynningunni að mikill fengur sé að fá Hrafnhildi til liðs við Hjallastefnuna á þessum tímamótum. ,,Hún hefur víðtæka reynslu og innsýn í menntamál sem mun nýtast vel. Auk þess hefur Hrafnhildur reynslu af því að stýra stórum hópum og leiða breytingar sem m.a. fela í sér valdeflingu starfsfólk sem hefur verið veigamikill þáttur í starfi Hjallastefnunnar frá upphafi.”

Hjallastefnan er eitt af stærri fyrirtækjum landsins þegar kemur að fjölda starfsfólks og umfangi með yfir 450 starfsmenn.