Rekstrartekjur Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf. fyrstu níu mánuði ársins voru 1.580 millj. kr. og rekstrargjöld voru 1.204 millj. kr. Hagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði fyrstu níu mánuði ársins nam 376 millj. kr., sem er 23,8% af tekjum. Veltufé frá rekstri nam 324 millj. kr. á tímabilinu en var 260 millj. kr. fyrstu níu mánuði ársins 2003. Eigið fé félagsins er 389 millj. kr. í lok tímabilsins en var 326 millj. kr. í lok ársins 2003.

Hagnaður félagsins er 62 millj.kr. Athygli er vakin á sérstakri niðurfærslu fastafjármuna upp á 65 millj.kr sem er vegna Júpiters ÞH-61 sem tekinn hefur verið úr rekstri og settur á söluskrá. Afkoma fjórða ársfjórðungs mun ráðast af veiðum uppsjávarfiska og afurðaverði þeirra. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemurfram að mikilvægt er að loðnumælingar nú í nóvember takist vel og heimilt verði að veiða loðnu í framhaldi af þeim mælingum. Félagið keypti í lok september nóta- og togskipið Júpiter FD-42 frá Færeyjum sem hefur fengið nafnið Júpiter ÞH-363. Gert ráð fyrir að rekstur samstæðunnar á árinu í heild skili hagnaði.