Fjármálasérfræðingar eru nokkuð jákvæðari nú en áður í garð samfélagsmiðilsins Facebook á hlutabréfamarkaði. Greinendur hafa birt hvert verðmatið á fætur öðru þar sem því er spá að afkoma fyrirtækisins muni batna á árinu og gengi hlutabréfanna hækka eftir afleitt gengi síðustu mánuði.

Hlutabréf Facebook voru skráð á markað í Bandaríkjunum í maí síðastliðnum og voru eftirvæntingarnar miklar. Gengi bréfa fyrirtækisins stóð í 38 dölum á hlut í fyrstu viðskiptum. Vonbrigðin voru eðlilega mikil þegar gengið tók sveig í þveröfuga átt en vonast var til. Þegar september rann upp var gengið komið niður í rétt rúma 17,7 dali á hlut og ljóst að meira en 50% af markaðsverðmæti fyrirtækisins hafði gufað upp á stuttum tíma. Það sveiflaðist talsvert í kjölfarið, ekki síst fyrir þær sakir að starfsmenn fengu heimildir fyrir því að selja hlutabréfaeign sína í félaginu.

Gengi hlutabréfanna tók svo sprettinn upp á við rétt fyrir áramót þegar nokkuð jákvæðar greiningar tóku að birtast um fyrirtækið. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að gengið fari í allt að 32 dali á hlut á næstu mánuðum. Ekki er gert ráð fyrir því að verðið komist upp í útboðsgengið. Það stendur nú í 26 dölum á hlut.

Gengisþróunin stýrist ekki síst af því hvenær bréf Facebook verða tekin inn í S&P 500-hlutabréfavísitöluna. Þegar það gerist munu hlutabréfasjóðir taka að kaupa bréfin í meiri mæli en áður. Fram kemur í umfjöllun MarketWatch, að líklega muni sú stund renna upp um mitt árið.