*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 1. október 2019 10:16

Hrakföll braggans halda áfram

Bragginn Bístró, veitingastaður sem var til húsa í hinum margumtalaða bragga í Nauthólsvík, hefur hætt starfsemi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bragginn Bístró, veitingastaður sem var til húsa í hinum margumtalaða bragga í Nauthólsvík, hefur lagt upp laupana. Hringbraut greinir frá þessu. 

Hafði veitingastaðurinn leigt braggann af Háskólanum í Reykjavík, en HR leigir braggann af Reykjavíkurborg og framleigir rýmið svo til veitingarekstrar.

Fjaðrafokið í kringum málefni braggans hafa vart farið fram hjá landsmönnum. Kostnaður við endurbætur á bragganum fóru langt fram úr áætlun. Upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir að heildarkostnaður endurbótanna myndi nema 158 milljónum króna en á endanum nam heildarkostnaður 415 milljónum króna. 

Í samtali við Hringbraut greindi Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri hjá HR, frá því að skólinn væri búinn að semja við nýjan rekstraraðila. 

„Braggi næsta stig við tjald“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur gagnrýnt braggamálið hvað harðast og í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið gagnrýndi hún meirihlutann í borgarstjórn fyrir sinn þátt í verkefninu. 

„Dagur B. Eggertsson segir sjálfur að bæði hann og borgin hafi farið að skoða það að koma þessum byggingum í not, svo blandast HR í þetta og svo fer boltinn bara af stað. Ég fór sjálf að skipta mér af þessu þegar það kom beiðni frá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar í sumar um að setja 150 milljónir til viðbótar hér í braggann.

Þetta mál er allt mjög skrýtið og stenst enga skoðun, að 70 milljónir hafi farið í minjavernd þegar Minjastofnun hefur sagt að húsin séu ekki nógu gömul til að falla undir vernd. Dagur keyrir málið á að þetta sé minjavernd en samt fara 30 milljónir í arkitektakostnað. Eina sem er upprunalegt er austurgaflinn, svo það hefði verið ódýrara að flytja inn nýjan bragga frá Bandaríkjunum, enda er braggi bara næsta stig við tjald,“ sagði Vigdís í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir ári síðan.

Farið fram úr samþykktum fjárheimildum og reglur brotnar

Þá sagði Viðskiptablaðið frá því undir lok árs 2018 að  í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um endurgerð braggans og samliggjandi húsa við Nauthólsveg 100 hafi m.a. komið fram að farið hafi verið fram úr samþykktum fjárheimildum og þess ekki verið gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar, sem sé brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar. 

Einnig hafi verið brotnar reglur og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar og ákvæðum þjónustusamninga milli mismunandi stofnana borgarinnar. Þar með talið hafi ekki verið gerðar frekari kostnaðaráætlanir.