*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Erlent 27. október 2016 15:32

„Hrakspámenn ættu að sýna auðmýkt“

Hagkerfi Bretlands óx hraðar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr ESB en hrakspámenn bjuggust við.

Ritstjórn
Theresa May, varð forsætisráðherra Bretlands í kjölfar afsagnar David Cameron sem kom stuttu eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu ljósar.
epa

Hagkerfi Bretlands óx hraðar en væntingar hagfræðinga og annarra sem spáðu að útganga landsins úr Evrópusambandinu myndi skaða hagkerfi landsins. 

Hagkerfið óx í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu

Á ársfjórðungnum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um málið þann 23. júní síðastliðinn óx hagkerfið um 0,5%, sem er betra en væntur meðalhagvöxtur sem spáð var að yrði 0,3%.

Vöxtur í þjónustu mældist 0,8% sem vóg á móti samdrætti í framleiðslu og framkvæmdum. 

Hrakspámenn ættu að sýna auðmýkt

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar spáðu stofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Englandsbanki og breska fjármálaráðuneytið fyrir um samdrátt í kjölfar þess að útganga yrði samþykkt. 

Ryan Bourne, einn þeirra sem tóku þátt í baráttu hópsins „Economists for Brexit“ sagði að þeir sem héldu úti hrakspám ættu að sýna auðmýkt enda hafi spár þeirra verið „mjög óraunhæfar skammtímaspár byggðar á takmörkuðum sönnunum um áhrif af skammtímaóvissu og væntingum um lægri hagvaxtarmöguleika utan ESB.“

Umrót í landinu í kjölfar niðurstaðna

Hagvaxtarútreikningarnir ná yfir tímabilið frá þjóðaratkvæðagreiðslunni en síðan þá hefur landið skipt um forsætisráðherra, pundið veikst umtalsvert og Englandsbanki lækkað stýrivexti í fyrsta sinn í sjö ár. 

„Það eru fá merki um viðvarandi áhrif í beinu framhaldi af atkvæðagreiðslunni,“ segir Joe Grice, aðalhagfræðingur hagstofu Bretlands.

Þrír af fimmtíu spáðu rétt

Þetta er fimmtándi ársfjórðungurinn í röð þar sem er hagvöxtur, þó hann sé minni en 0,7% hagvöxtur ársfjórðunginn á undan.

Einungis þrír af fimmtíu hagfræðingum sem Bloomberg fréttastofan spurði hitti á rétta tölu, allir aðrir bjuggust við minni hagvexti. Þessi hagvöxtur dregur úr líkum á frekari stýrivaxtalækkun í bráð.