Átök Breta og Frakka um Eurostar sem á og rekur hraðlestirnar sem ganga milli London og Parísar virðist hafa lyktað í bili að minnsta kosti með einskonar málamiðlun að því er greint er frá í Evening Standard. Þar taka Frakkar við forstjórastöðunni í félaginu, en gefa um leið eftir af eignarhlut sínum í hendur Breta. Verða Frakkar þá bæði með forstjóra og stjórnarformann, en Frakkinn Guillaume Pepy mun áfram gegna starfi stjórnarformanns í félaginu. Eiga þessar breytingar að taka gildi í lok þessa árs.

Er þetta sagt vera liður í því að laga fyrirtækið að því að opnað verður fyrir samkeppni á þessari leið á næsta ári. Er þá búist við að þýska járnbrautarfélagið Deutsche Bahn og Air France muni ætla sér stóra hluti í beinni samkeppni við Eurostar sem einokað hefur þessa leið frá því Ermasundsgöngin voru gerð.

Hluti af málamiðluninni innan Eurostar er að Bretinn Richard Brown stendur upp úr forstjórastólnum í stað Frakkans Nicolas Petrovic sem verið hefur framkvæmdastjóri yfir daglegum rekstri. Hefur Evening Standard það eftir heimildum í London að ekki séu allir stjórnendur hjá Eurostar ánægðir með þennan ráðahag, en af 10 æðstu stjórnendum eru 7 Bretar þó Frakkar eigi meirihlutann í félaginu. Er sagt að Bretarnir telji samt að verið sé að gefa ansi mikið eftir gagnvart Frökkum með því að láta þá hafa forstjórastólinn.

Til að liðka fyrir því að fá yfirmann fyrirtækisins til sín virðast Frakkar (SNCF) hafa fallist á að minnka sinn eignarhlut í félaginu úr 62% í 55%. Breska samgönguráðuneytið mun þá auka sinn hlut úr 33% í 40, en Belgar (SNCB) munu áfram halda sínum 5% hlut í félaginu.

Málið er einnig talið tengjast því að breska ríkið hafi verið að auka hlut sinn í London & Continental Railways sem byggði hraðbrautarkerfið og á landið sem það hefur einnig hannað í kringum stöðvarnar. Sagt er að Deutsche Bahn hafi lagt fram fyrirspurn um hvort breska samgönguráðuneytið væri til í að selja sinn hlut í félaginu.