Hrannar Már S. Hafberg lögfræðingur hefur verið skipaður formaður rannsóknarnefndar um sparisjóðina. Eins og greint var frá í fréttum í gær óskaði Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari sem áður vermdi formannssætið eftir því að vera leyst frá störfum. Hún hefur snúið aftur til fyrri starfa við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Fram kemur í tilkynningu frá Alþingi kemur fram að Hrannar hafi lokið meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands í febrúar 2008. Auk þess að hafa verið settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og starfað við dómstóla í fjögur ár hafi hann sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Hrannar hefur að undanförnu starfað fyrir rannsóknarnefnd um sparisjóðina.

Alþingi skipaði rannsóknarnefndina í júní í fyrra og hefur hún það hlutverk að rannsaka aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Hún átti upphaflega að skila skýrslu um málið í sumar.

Í kvöldfréttum RÚV í gær kom fram að ársleyfi sem Sigríður hafði frá héraðsdómi hafi ekki fengist framlengt. Því til viðbótar hafi verið ágreiningur innan nefndarinnar um starfsemi hennar.