*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Erlent 16. febrúar 2021 10:02

Hráolía hækkað um 67%

Olíuverð hefur ekki verið hærra í 13 mánuði. Efnahagsbati og vetrarkuldar eiga þátt í hækkuninni.

Ritstjórn
epa

Verð á Brent hráolíu hækkaði í 63,3 dollara á tunnu í gær og hefur ekki verið hærra síðan í janúar 2020 að því er WSJ greinir frá. Þá hækkaði verð á West Texas Intermediate hráolíu um 1,1% í 60,13 dollara á tunnu.

Viðsnúningur í efnahagslífinu skýrir að nokkru leyti hækkun olíuverðs. Brent hráolía hefur hækkað um 67% frá því í lok október þegar tunnan fór undir 38 dollara en í byrjun nóvember fóru að berast fregnir af niðurstöðum bóluefnarannsókna Pfizer og fleiri lyfjaframleiðenda gagnvart COVID-19. 

Þá hafa miklir vetrarkuldar í miðríkjum Bandaríkjanna haft í för með sér að milljónir heimila í Texas urðu rafmagnslaus. Skammta þurfti raforku til fjölda heimila. Birgðastaða á hráolíu hefur einnig farið lækkandi vestanhafs. Vetrarkuldar í Evrópu hafa einnig átt þátt í að þoka olíuverði upp á við.