Verð á hráolíu hefur lækkað um nær 15% á síðustu þremur vikum og óttast sérfræðingar að OPEC takist ekki að framfylgja áætlunum sínum um að draga úr framleiðslu.

Tunnan hefur ekki verið jafn lág í nær fimm mánuði, en þá hafa gögn frá Bandaríkjunum einnig haft áhrif á verðmyndunina. Bandarískir framleiðendur hafa verið að framleiða meira en gert var ráð fyrir.

Í nóvember 2016 virtist allt benda til þess að OPEC ríkin myndu ná að framfylgja samkomulagi sínu. Nú bíða greiningaraðilar eftir næsta fundi helstu olíuríkja heimsins, en hann verður haldinn 25 maí.

Á umræddum fundi verður rætt um árangur síðustu sex mánaða og hvort að herða þurfi aðgerðir.

Óvissan og þróun síðustu daga hefur þá einnig haft veruleg áhrif á hlutabréfaverð helstu olíufyrirtækjanna. Chevron og ExxonMobil féllu til að mynda um 2 og 1,3 prósent.