Spákaupmenn losuðu sig í dag við framvirka hráolíusamninga og féllu þeir því um 3% í viðskiptum dagsins. Birgðastaða í Bandaríkjunum hefur nefnilega aukist og þrátt fyrir fundarhöld og samninga OPEC-ríkjanna óttast spákaupmenn enn offramleiðslu í miðausturlöndum.

Samkvæmt EIA, bandarísku orkumálastofnuninni, hafa hráolíubirgðir aukist um 14,4 milljónir tunna í síðustu viku. Samkvæmt BBC bjuggust markaðir aftur á móti bara við 1 milljón tunna aukningu.

Um er að ræða mestu birgðaaukningu í Bandaríkjunum í einni viku síðan mælingar hófust, en síðasta met var slegið árið 2012. Wext Texas Intermediate hráolían (WTI) hefur fallið um 1,38 dali og stendur í um 45,29 dölum á tunnu, en BRENT hráolían hefur lækkað um 1,38 dali á tunnu og stendur í rúmlega 46,76 dölum á tunnu.