Fatið af Brent Norðursjávarolía hækkaði um einn Bandaríkjadal þegar markaðir opnuðu í London í gærmorgun og var verðið rétt undir 74 dölum um hádegi. Olíuverð hefur ekki verið hærra í tíu mánuði og telja sérfræðingar um olíumarkaðinn stutt í að verðið fari yfir 75 dali, en það sem af er árinu hefur olíuverð hækkað um meira en tuttugu prósent. Fatið af hráolíu í kauphöllinni í New York hefur jafnframt ekki verið jafn hátt í tíu mánuði og stendur um þessar mundir í tæplega 72 dölum.

Í frétt Dow Jones fréttastofunnar í gær segir að margar ástæður séu fyrir hækkununum undanfarin misseri; meðal annars væntingar um að olíubirgðir Bandaríkjanna fari minnkandi, stöðugar árásir herskárra hópa á olíuvinnslustöðvar erlendra fyrirtækja í Nígeríu, auk þess sem framleiðslugeta breskra olíuvinnslustöðva hefur ekki náð að standa undir markmiði þarlendra stjórnvalda um þriggja milljóna fata framleiðslu á dag.