Verð á hráolíu í Bandaríkjunum lækkaði í gær vegna væntinga um batnandi birgðastöðu, og hefur ekki lækkað meira á einum degi undanfarnar sjö vikur. Þá styrktist Bandaríkjadalur mikið gagnvart evrunni þar sem líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti 31. október nk. hafa minnkað eftir birtingu atvinnutalna í september á föstudag sem sýna betri stöðu vinnumarkaðarins á 3. ársfjórðungi þar í landi en búist hafði verið við. Hafði styrking Bandaríkjadals í gær einnig nokkur áhrif til lækkunar olíuverðs.

Hráolíuverð náði hámarki í 83,90 dölum fyrir tunnuna þann 20. september í kjölfar stýrivaxtalækkunar í Bandaríkjunum sem varð til þess að dalurinn veiktist. Hækkunin þá orsakaðist ekki síður af lágri birgðastöðu og hinu árlega tímabili fellibylja sem nú er liðið hjá. Hráolía til afhendingar í nóvember kostaði 79,02 dali við lokun markaða í New York í gær og er það lægsta dagslokaverð síðan 22. september. Í London fór verð á hráolíu til afhendingar í nóvember niður í 76,58 dali við lokun, hið lægsta síðan 14. september. Verð á báðum stöðum lækkaði enn frekar í rafrænum viðskiptum eftir lokun. (HM)

Greint var frá þessu í Morgunkorni Glitnis.