Verð á hráolíu náði nýju sögulegu hámarki í 100 dölum tunnan í gær en olíuverðið hefur hækkað um nær 60% á einu ári. Í Morgunkorni Glitnis segir að eftirspurn eftir hrávörum í heiminum fari hratt vaxandi. Verð á gulli og matvörum hækkaði einnig mikið í gær. Lækkun gengis Bandaríkjadals gagnvart  helstu gjaldmiðlum heims á sinn þátt í þessari þróun. Þá á stóraukin olíunotkun Kínverja á sinn þátt í aukinni eftirspurn eftir olíu í heiminum og hækkandi verði.

Í gær hækkaði verð á hráolíu til afhendingar í Febrúar um 3.8% í New York og lokaði í 99.62 dölum eftir að hafa snert 100 dali innan dagsins. Ein viðskipti voru staðfest á því hámarksverði. Í London hækkaði verð á Brent hráolíu til afhendingar í Febrúar um 4.3% í gær og nam 97.84 dölum tunnan við lokun sem er hæsta verð hingað til, samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.