Hráolíuverð hefur lækkað talsvert síðan í gær, eða um 3% á milli daga, í kjölfar mótmæla í Kína vegna harðra sóttvarnaraðgerða stjórnvalda þar í landi. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters.

Verð á WTI hráolíu stendur nú í 74 dölum á tunnu og hefur ekki verið lægra í 11 mánuði eða síðan í desember í fyrra.

Brent hráolían hefur einnig lækkað um rúm þrjú prósentustig á milli daga og stendur nú í 81 dölum á tunnu.

Óeirðir brutust út í Kína í kjölfar þess að tíu manns létust í borginni Urumqi á fimmtudaginn. Stjórnvöld höfnuðu ásökunum um að Covid-takmarkanir hefðu hamlað björgunaraðgerðum og hindrað íbúum að flýja eldinn.

Mótmæli héldu áfram í stærstu borgum Kína um helgina.